Press Enter / Return to begin your search.

Er betra að kaupa vörur úr málmi en plasti?

Svarið við þessari spurning er ekki alveg eins auðvelt og ætla mætti. Framleiðsla á áli hefur í för með sér mikil umhverfisáhrif þar sem ál er búið til úr báxíti sem er málmgrýti sem inniheldur mikið áil. Álframleiðsla snýst um að ná álinu úr berggrýtinu og út úr þessu framleiðsluferli kemur, í stuttu máli, aðallega tvennt: annars vegar fíngert hvítt duft (súrál) og svo þykk rauð leðja sem inniheldur vítissóda. Þessi rauða leðja er allra jafna einskins nýt. Landeyðingin í álframleiðslu, þ.e. landið sem raskast (oft varanlega) vegna námugraftar eftir báxítinu, er verulegt umhverfisvandamál.  Það að framleiða einnota plastflösku úr nýju hráefni, flytja hana og urða hefur minni umhverfisáhrif heldur en einnota áldós sem er úr nýju hráefni. Lykilorðið hér er samt sem áður ”einnota”. Við endurvinnslu á áli þarf einungis 5% af þeirri orku sem þarf til að gera nýja áldós í fyrsta sinn. Því eru margar breytur sem þarf að huga að áður en svar fæst við þessari spurningu.

Málmar henta vel sem umbúðir þar sem þeir eru verðmætir og skila sér yfirleitt vel inn til endurvinnslu. Mikill ávinningur felst í því að endurvinna málma, sem dæmi þá er hægt að endurvinna suma málmtegundir aftur og aftur.
Vínbúðin birti nýlega umfangsmikla skýrslu um lífsferilsgreiningu áfengisumbúða og niðurstaðan var sú að best væri að kaupa bjór í dós og vín í fernum og boxum.