Press Enter / Return to begin your search.

Það er margt hægt að gera til að minnka plastnotkun á baðherberginu. Sumar breytingar eru auðveldar, aðrar krefjast aðeins meira af okkur. Í raun er hægt að gera baðherbergið næstum alveg plastlaust ef viljinn er fyrir hendi.

 

Krem og sápur: Plastagnir er að finna í mörgum snyrtivörum. Forðumst snyrtivörur sem hafa polyethylene, nylon og polypropylene meðal innihaldsefna.

 

Handsápur: Auðvelt er að skipta út fljótandi handsápu í plastílátum fyrir sápustykki sem koma í pappírsumbúðum. Þau endast mun lengur er fljótandi sápan og þar sem þau taka minna pláss í flutningum bera þau einnig minna kolefnisfótspor. Einnig eru sölustaðir um land allt sem bjóða upp á að kaupa fljótandi handsápu umbúðalaust, þ.e. kaupa áfyllingu.

 

Tannburstar: Tannburstar úr bambus eru þeir plastminnstu en einnig er hægt að fá tannbursta úr endurunnu plasti fyrir þá sem eru feimnir við bambusinn.

 

Tannkrem: Í venjulegri tannkremstúpu er plast bæði í umbúðum og innihaldi. Betra er að skipta því út fyrir tannkremstöflur sem fást ýmist í glerkrukkum eða umbúðalaust.

 

Tannstönglar: Notum frekar tannstöngla úr viði eða bambus.

 

Svitalyktareyðir: Matarsódi virkar mjög vel sem svitalyktareyðir. Hægt er að bera matarsódann beint á húðina eða blanda honum út í olíur t.d. kókosolíu. Þá er auðveldara að bera hann á. Ýmsir hafa líka hafið framleiðslu á svitalyktareyði sem ekki er í plastumbúðum. Hægt er að fá svitalyktareyði í krukkum og einnig í pappírsumbúðum.

 

Tannþráður: Venjulegur tannþráður er úr plasti og er í plastumbúðum. Hægt er að skipta honum út fyrir tannþráð úr silki í áfyllanlegum glerumbúðum.

 

Hársápa og hárnæring: Hægt er að kaupa hársápu og hárnæringu í stykkjum eins og aðrar sápur og sleppa þar með við allar plastumbúðir. Bæði er úrval framleiðenda og úrval sáputegunda fyrir mismunandi hár. Það geta verið viðbrigði að breyta úr fljótandi hársápu yfir í hársápustykki (e. shampoo bar) en um að gera að prófa. Einnig er hægt að ganga enn lengra og búa sér til hársápu úr matarsóda og vatni og nota edikblöndu fyrir hárnæringu. Einnig er alltaf að fjölga sölustöðum sem selja fljótandi hársápu og hárnæringu umbúðalaust, þ.e. í áfyllingu.

 

Förðun: Mikil gróska er á markaðnum í þróun á plastlausum förðunarvörum. Um að gera að prófa sig áfram og kaupa frekar plastlausar vörur í áfyllanlegum umbúðum.

 

Hreinsiklútar: Byrjum á því að forðast einnota hreinsiklúta. Þeir eru úr plasti og í plastumbúðum. Hægt er að kaupa fjölnota bómullarklúta eða jafnvel sauma eða hekla heima.

 

Dömubindi og túrtappar: Það er plast í langflestum einnota dömubindum og tíðatöppum. Best er að skipta út fyrir fjölnota taudömubindi, túrnærbuxur eða tíðabikar. Henti fjölnota ekki má finna einnota, plastlaus og umhverfisvottuð dömubindi og tíðatappa í flestum matvöruverslunum.

 

Klósettpappír: Ef hægt er, kaupum klósettpappír í pappírsumbúðum. Sumir nota miklu meiri klósettpappír en tilefni er til, ef við spörum klósettpappírinn þá þurfum við sjaldnar að kaupa hann inn.

 

Rakvélar: Reynum að forðast einnota rakvélar. Fjölnota rakvél með skiptanlegum blöðum er fljót að borga sig.

 

Eru plastagnir í snyrtivörunni þinni?: Hægt er að fletta upp upplýsingum um plastagnir með Microbeads smáforritinu.

 

Auðvitað á svo ekkert nema lífræni úrgangurinn að enda í klósettinu. Blautklútar, eyrnapinnar og allt slíkt á að fara í ruslið.

Ertu með ábendingu? Taktu þátt í umræðuhópnum um Plastlausan september á Facebook eða sendu okkur tölvupóst.