Press Enter / Return to begin your search.

Örplast eru plastagnir sem eru minni en 5 mm í þvermál og sjást oftast ekki með berum augum. Örplast er allstaðar á jörðinni, í andrúmsloftinu og í dýpstu hafsprungum. Örplast er hluti af svifryki (nanóagnir t.d.) og koma þær aðallega frá bíldekkjum og götumerkingum. Þegar örplast er orðið að nanó-ögnum þá á það mjög greiða leið inn í líkama okkar í gegnum öndunarfærin. Norðmenn hafa gefið út meðmæli um hvaða aðgerðir geta dregið úr því að örplast berist af götunum og út í sjó. Þessi meðmæli eru: nota bílinn minna, bæta þrif á vegum, minnka notkun á nagladekkjum, vistakstur og sjálfkeyrandi bifreiðar og svo bætt snjóhreinsun.

Skordýr, t.d. ormar geta einnig dreift örplastinu neðar í jarðveginn þar sem þeir taka örplastið upp á einum stað og skila því út með saur á næsta stað.

Svokallaðar örperlur (e.microbeads) finnast í mörgun snyrtivörum. Örperlur eru settar í snyrtivörur til að framkalla ákveðna áferð eða áhrif. Örperlurnar eru minni en 1 mm í þvermál og eru framleiddar agnir sem verða að örplasti þegar þær fara út í náttúruna. Svona litlar plastagnir virka sem einskonar svampar á eiturefni, þ.e. þær draga í sig önnur mengandi efni úr umhverfinu sem gerir það að verkum að örperlurnar/örplastagnirnar verða enn mengaðri fyrir vikið.

Breskir vísindamenn hafa kallað eftir sölubanni á glimmeri sem er búið til úr plasti og benda vísindamennirnir á að glimmer hafi sömu neikvæðu áhrifin á umhverfið og annað örplast.

Rannsóknir á uppsprettum örplasts á Íslandi er stutt á veg komnar en samkvæmt skýrslu sem unnin var fyrir Umhverfis- og auðlindaráðuneytið árið 2019 má gera ráð fyrir að árleg losun örplasts í umhverfið á Íslandi sé um 450-1000 tonn. Hjólbarðar innihalda plast sem verður að örplasti við slit og samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar eru hjólbarðar langstærsta uppspretta örplasts hér landi og áætlað að 371-586 tonn berist í umhverfið á ári hverju og að 164-255 tonn af því berist til sjávar. Hlutfall hjólbarða í örplastmengun er líkt og í nágrannalöndum okkar, eða um 75%.  Plastagnir úr vegmerkingum koma næst hér á landi, 6-43 tonn. Þriðja stærsta uppspretta örplasts í umhverfinu er plast úr húsamálningu, 15-36 tonn, fjórða eru plastagnir frá þvotti, 8-32 tonn og fimmta stærsta uppsprettan er plast úr skipamálningu, 3-10 tonn.

Hérna er verið að tala losun í umhverfið, ekki er talið að öllu skoli til sjávar en í sumum flokkum sem hér eru taldir upp er talið að hátt hlutfall skoli til sjávar eins og sjá má á tölum um hjólbarða. Einnig er talið að um helmingur örplasts frá húsamálningu skoli til sjávar og gert er ráð fyrir að allt örplast frá þvotti og snyrtivörum fari til sjávar með fráveitukerfum.

Árið 2018 gerði Umhverfisstofnun tvo rannsóknarsamninga til að meta stöðuna á plastmengun í hafinu í kringum Íslandi, annars vegar við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum sem skoðaði örplast í kræklingi á völdum stöðum við Ísland. Hins vegar var gerður samningur við Náttúrustofu Norðausturlands um rannsókn á plasti í maga fýla. Niðurstöðurnar sýndu að örplast fannst í fjörukræklingi á öllum stöðum sem voru kannaðir og voru þetta aðallega plastþræðir (meðallengd þeirra 1,1mm) og plast fannst í um 70% þeirra fýla, marktækt meira plast í maga kvenfuglum. Örplast- og plastvandamálið hefur sannarlega áhrif á lífríkið við Ísland.

Einnig þurfum við að hafa í huga að margar hreinlætisvörur sem við notum eiga ekki heima í klósettinu, eins og t.d. blautþurrkur, sem eru úr plasti. Munum að það á ekkert að fara í klósettin nema það sem kemur frá líkömum okkar og salernispappír.

Helsta lausnin í baráttunni við örplastið er því að draga úr notkun einkabílsins og minnka svifryk í umhverfinu okkar.

Heimildir:
https://www.nationalgeographic.com/environment/2018/12/microplastic-pollution-is-found-in-deep-sea/
https://www.miljodirektoratet.no/globalassets/publikasjoner/M545/M545.pdf
https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit–skyrslur-og-skrar/%c3%96rplast-BioPol_lokask%c3%bdrsla.pdf
https://vegnett.no/2018/03/bildekk-er-den-storste-kilden-til-mikroplast/
https://www.youtube.com/watch?v=uAiIGd_JqZc
https://tuttugututtugu.com/2017/11/17/vilja-banna-glimmer/
https://www.ust.is/2019/01/14/Orplast-finnst-i-islenskum-kraeklingi-plast-i-maga-70-fyla/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/
https://tuttugututtugu.com/tag/orplast/