Press Enter / Return to begin your search.

Þegar kemur að því að draga úr plastnotkun við framkvæmdir og garðvinnu eru margar leiðir færar, flestar felast í að endurnýta og samnýta.

Framkvæmdir

  • Endurnýtum það sem hægt er t.d. málnigarplast
  • Skoðum hvort það sem okkur vantar sé til notað t.d. í Efnismiðlun Góða hirðisins á Sævarhöfða og Breiðhellu eða spyrjumst fyrir í hópum á Facebook
  • Veljum umhverfisvottaðar vörur þegar það er hægt t.d. penslasápu
  • Flestöll málning inniheldur plast en kalkmálning er plastlaus. Flestum hentar að velja svansvottaða málningu (sem inniheldur þó plast). Samkvæmt skýrslu sem unnin var fyrir Umhverfis- og auðlindaráðuneytið árið 2019 má gera ráð fyrir að þriðja stærsta uppspretta örplasts í umhverfinu sé plast úr húsamálningu eða um 15-36 tonn árlega
  • Hægt að fá umhverfisvottun Svansins á byggingar og með því að leita á netinu er auðvelt að finna vörulista byggingarvöruverslana með svansvottuðum vörum
  • Að fá lánuð og leigja verkfæri. Mikið af umbúðum af verkfærum eru úr plasti auk þess sem tækin sjálf eru að stórum hluta úr plasti. Oft þarf bara að nota verkfæri í stuttan tíma og þá getur verið sniðugt að deila verkfærum t.d. með ættingja, vini eða nágranna. Einnig er hægt að nýta sér verkfæraleigur byggingarvöruverslana eða Munasafnið (https://www.munasafn.is/)
  • Reynum að velja vandaðar vörur sem eru líklegar til að endast vel þegar nauðsynlega þarf að endurnýja eitthvað
  • Flokkum rétt. Framkvæmdum fylgir oft mikill úrgangur sem við berum ábyrgð á, bæði á að úrgangurinn fjúki ekki og einnig að koma honum í réttan farveg.

Garðurinn

  • Jarðgerð. Hefðbundin moltutunna eða Bokashi i þar sem lífrænn úrgangur heimilisins breytist í gæða mold. Þannig drögum við úr myndun gróðurhúsalofttegunda og græðum frábæran áburð fyrir garðinn (sem annars er oft keyptur í plastumbúðum)
  • Plöntupottar. Ef við kaupum plöntur í plastpottum endurnýtum þá eða komum þeim til einhvers sem getur endurnýtt þá. Ef við sáum fyrir plöntum endurnýtum þá plastpotta eða notum eggjabakka eða klósettrúllur. Ef okkur vantar potta fyrir útiblómin getum við keypt potta úr leir eða endurnýtt t.d. málmdósir, stígvél eða gamlar hjólbörur.
  • Deilum. Sum verkfæri eða tæki fyrir garðinn þurfum við ekki að eiga. Íhugum að deila sláttuvél með nágrannanum eða fjölskyldumeðlimi eða nýta deilileigur eins og Munasafnið
  • Ef við erum að smíða reynum að endurnýta spýtur og við eða skoðum að velja lerki sem er viðhaldsfrítt og þarf ekki reglulega efnameðhöndlun (efnin eru í plasti)
  • Hellulögn. Ef við erum að helluleggja má kaupa notaðar hellur hjá Efnismiðlun Sorpu eða í íbúahópum á Facebook 
  • Sláttur. Við mælum með stórum fjölnota pokum ( t.d blái pokinn úr IKEA) undir slegið gras og illgresi sem á að fara á grenndarstöðvar. Einnig eru til sterkir pappírspokar sem eru ætlaðir undir garðaúrgang
  • Náttúrulegar skordýravarnir. Gott er að hafa hugfast að ekkert eru til sem heitir viðhaldsfrír garður, það er æskilegt að hafa sem mest líf í garðinum og nota náttúrulegar skordýravarnir