Press Enter / Return to begin your search.

Af hverju ætti ég að flokka plast

Plast brotnar ekki niður í náttúrunni þannig að það verði aftur að jarðvegi heldur brotnar það í náttúrunni í smærri einingar. Oftast endar plast í það smáum einingum að það fær heitið örplast. Örplast eru þær plastagnir sem eru 5mm eða minni í þvermál. Örplast er hættulegt vegna smæðar sinnar, þ.e. það á greiða leið inn í lífverur, það mælist í drykkjarvatni og í matvælum. Örplast er því komið inn í fæðukeðjuna og er farið að berast í okkur mennina.

Plast á víðavangi á greiða leið í hafið. Við höfum sennilegast öll séð myndir af lífverum sem hafa orðið fyrir barðinu á plasti sem hefur fokið eða borist í hafið. Við ættum að gera allt í okkar valdi til að hefta að plast berist í hafið.

Önnur ástæða sem gæti höfðað til fólks, er sú að plast er framleitt úr olíu sem er þrjótandi auðlind. Olía er öflugt efni og við erum háð því á margan hátt, því ættum við ekki að eyða því í óþarfa eins og að búa til lok á einnota kaffibollann.

Fræðandi myndband um flokkun plast má sjá á Youtube.

Hvernig flokkar maður plast?

Flokkun á plasti skiptist í flokkun á umbúðum, sem gefa úrvinnslugjald, og svo því plasti sem ekki ber úrvinnslugjald. Það plast sem ber ekki úrvinnslugjald er til dæmis að finna í garðstólum, þvottabölum og snjóþotum. Þess háttar plast þarf að fara með á móttökustaði sorpu eða sambærilegs fyrirtækis í þínu sveitarfélagi – nema það komist fyrir í plasttunnunni þinni.

Taka þarf plastumbúðir sem búið er að nota og þrífa það og þurrka áður en umbúðunum er hent í plasttunnuna. Ef það er ekki gert er plastið tekið frá þegar komið er í sorpstöðina og sett í urðum. Því hvetjum við fólk til þess að flokka og gæta þess að plastið sé bæði hreint og þurrt.

Nánari upplýsingar og fróðleik um flokkun plasts má finna í flokkunarleiðbeiningum Sorpu.

Hvað verður um plastið sem ég flokka?

Á Íslandi er lang mest af plastumbúðum og plastflöskum sem fara í endurvinnslu pressað saman í bagga, sett í gám og flutt úr landi til t.d. fyrirtækis í Svíþjóð sem heitir Stenarecycling. Þar er plastið endurunnið eða brennt til orkuvinnslu.

Hvar get ég losað mig við plast svo það fari í endurvinnslu?

Þú getur hent plasti annaðhvort í grenndargáma eða þar til gerðar tunnur. Það fer eftir því í hvaða sveitafélagi þú býrð í hvaða tunnu má henda plasti, en hjá sumum er það í bláu tunnuna á meðan í öðrum er það í þá grænu.

Hvar get ég nálgast tunnu fyrir plastið?

Sveitafélög um allt land bera ábyrgð á sorphirðu og að Ísland nái markmiðum um endurvinnslu. Við hvetjum því fólk til þess að hafa samband við sitt sveitafélag eða fara inn á heimasíðu þess og kynna sér málin.