Press Enter / Return to begin your search.

Hér eru nokkur ráð til að draga úr plastnotkun sem tengist börnum og umönnun þeirra.

  • Bleyjur: Notum taubleyjur í staðinn fyrir eða með einnota  umhverfisvottuðum bleyjum.
    Kynning og leiðbeiningar (PDF): Taubleyjur fyrir byrjendur
  • Blauturrkur: Notum margnota þvottastykki í stað einnota blautþurrka.
  • Barnaleikföng: Veljum leikföng úr náttúrulegum efnum, í stað plasts. Kaupum færri ný leikföng. Kaupum frekar notuð leikföng og nýtum okkur skiptimarkaði.
  • Barnaafmæli: Notum eigin borðbúnað í stað þess að kaupa einnota diska og glös sem við svo hendum. Ef ekki er til nóg af borðbúnaði á heimilinu, fáum þá lánað. Notum taudúk á borðið í barnaafmælum og skrautlengjur úr pappír í stað þess að hafa blöðrur.

Bleyjur
Hvert barn notar í kringum 5000 bleyjur á fyrstu árum ævi sinnar. Einnota bleyjur er að hluta til úr plastefnum, þær er ekki hægt að endurvinna og eru nokkur hundruð ár að brotna niður í umhverfinu. Framleiðsla einnota bleyja, úrgangur sem fellur til við notkun þeirra og umbúðirnar utan um þær gefa tilefni til þess að íhuga að taka upp margnota taubleyjur. Það á sérstaklega við á Íslandi þar sem við höfum nóg af vatni og hreina orku til þess að keyra áfram þvottavélarnar okkar. Munum að nota umhverfisvæn þvottaefni.

Notkun taubleyja á Íslandi hefur aukist mikið síðasta áratuginn. Á Facebook má finna spjallhópa um taubleyjur sem og sölusíðu fyrir taubleyjur og allt sem þeim tengist. Nokkrar áhugakonur tóku sig saman og gerðu bækling með fræðslu um taubleyjur og notkun þeirra sem dreift var á allar heilsugæslustöðvar. Taubleyjur fyrir byrjendur.

Blautþurrkur
Foreldrar nota margir hverjir einnota blautþurrkur þegar þeir eru að þrífa börnin, bæði við bleyjuskipti og einnig þegar verið er að þrífa klístraða fingur. Blautþurrkur eru oft búnar til úr blöndu af viskós og pólýetýleni, sem er plastefni. Umbúðirnar utan um blautþurrkurnar eru nánast undantekningarlaust úr plasti

Það má alls ekki henda blautþurrkum í klósettið, jafnvel þótt það standi á umbúðunum að slíkt sé heimilt, því þær valda stíflum í fráveitukerfum og taka langan tíma að brotna niður í náttúrunni. Hægt er að skipta út einnota blautþurrkum fyrir margnota þvottastykki sem eru þvegin eftir notkun og notuð aftur og aftur. Sumir kjósa að bleyta þvottastykkin jafnóðum meðan aðrir setja þau í ílát og hella soðnu vatni yfir með smá olíu.   

Hér er ein útfærsla af heimagerðum blautþurkum:

Setjið tauþurrkurnar í ílát og hellið soðnuvatni yfir þær, bætið við 1 msk af olíu, t.d. kókosolíu eða sætri möndluolíu. Látið kólna og takið mesta vatnið úr klútunum og setjið svo í lokað ílát.

Barnaleikföng
Mörg leikföng eru nánast einnota og eru þau flest úr ódýru plasti. Best er að forðast kaup á slíkum leikföngum. Umbúðir utan um plastleikföng eru gjarnan úr plasti. Foreldrar ættu að vera meðvitaðir um merkingar á plastleikföngum og hvað þær þýða.

Hægt er að velja leikföng úr náttúrulegum efnum, eins og tré. Mikið úrval er af tréleikföngum á Íslandi.  Margir eru farnir að kaupa frekar notuð leikföng á hinum ýmsu sölusíðum sem fyrirfinnast á internetinu sem og að versla á stöðum sem selja notuð leikföng eins og t.d. í Rauða krossinum sem selur einungis notaðar barnavörur.

Barnaafmæli
Flestir kannast við barnaafmæli þar sem þemað snýst um teiknimyndapersónu sem barnið heldur upp á. Skreytt er með blöðrum, plastdúkur settur á borð, rör og plastglös keypt sem og hnífapör úr plasti. Flestar þessara vara eru einnota og þeim hent eftir notkun. Í stað þessa er betra að nota taudúk á borðið, skraut eða borða úr pappír í staðinn fyrir blöðrurnar, nota fjölnota fánalengju, hvort sem er úr pappír eða taui, og vera með þann borðbúnað sem til er á heimilinu. Eins er hægt að notast við gamlar krukkur sem drykkjarmál. Hægt er að skreyta þær á ýmsan máta.

Teiknimyndapersónum og þemanu, sem barnið óskar eftir, er svo hægt að koma til skila t.d. með köku og allskonar pappírsskrauti. Á heimasíðunni Minna sorp; lærdómsferli fjölskyldu má finna góð ráð eins og um skreytingar í barnaafmæli.

Heimildir: