Press Enter / Return to begin your search.

Það plast sem framleitt hefur verið í heiminum er ennþá til, hafi það ekki verið brennt. Mikilvægt er að endurnýta/nota, endurvinna og draga úr neyslu. Það má því segja að plastið sjálft er ekki vandamálið heldur hvernig við notum það. Þá skiptir sköpum að hætta notkun á öllum óþarfa einnota umbúðum eins og rörum, plasthnífapörum og plastpokum.

Við ættum öll að kappkosta að draga verulega úr allri notkun einnota umbúða, alveg sama úr hvaða efni þær eru.

Byrjað var að framleiða plast þegar tæknin til þess var uppgötvuð upp úr aldamótunum 1900 og fjöldaframleiðsla á plasti hófst í kring um 1950. Til framleiðslunnar þarf jarðefnaeldsneyti, þ.e. olíu og gas en það eru þrjótandi auðlindir. Olíu er dælt upp úr jörðinni og er hreinsuð í sérstökum olíuhreinsunarstöðvum. Í stuttu máli má segja að þegar jarðefnaeldsneyti er hreinsað og unnið þá myndast hvarfgjarnar sameindir. Þessum sameindum er sem safnað saman og blandað við ákveðinn hvata. Í þessu ferli verða til langar keðjusameindir sem kallaðar eru fjölliður. Úr þessum fjölliðum myndast fljótandi massi sem auðvelt er að forma. Með mismunandi uppröðun fjölliðanna  (þ.e. hvernig þær raðast saman) fáum við mismunandi plastefni. Í plastframleiðslu er einnig bætt við öðrum grunneiningum af efnum (t.d. klóreten eða BPA) til þess að hafa áhrif á eiginleika plastsins og t.d. styrkja það.
Með mismunandi vinnsluaðferðum á hráolíu er hægt að vinna mismunandi gerðir af plastefnum. 

Plast er gjarnan flokkað í sjö flokka. Á plastumbúðum sjáum við gjarnan endurvinnslu þríhyrninginn með tölustaf inni í.

Plastflokkarnir sjö eru:

PETE 1 er PET plast og er verðmætt plast þar sem það hentar vel til endurvinnslu. Finnst m.a. í gosflöskum. 

HDPE 2 er high density pólúetýlen sem er eitt algengasta plastið og við finnum það m.a. í umbúðum á snyrtivörum. Þetta plast hentar einnig vel til endurvinnslu.

PVC 3 er PVC plast eða pólývíkílklóríð og er notað t.d. í regnföt, stígvél, sturtuhengi, leikföng, vaxdúka, rafmagnskapla, frárennslisrör o.fl. Notkun á PVC plasti getur leitt af sér að hættuleg efni, t.d. þalöt, þungmálmar (blý, kvikasilfur, kadmíum) og díóxín sem geta losnað út í umhverfið. 

PE-LD 4 er low density pólýetýlen og er t.d. notað í margar gerðir plastpoka. Þetta efni hentar einnig vel til endurvinnslu. 

PP 5 eða pólýprópýlen er notað í umbúðir á matvælum (tómatsósur, skyrdósir o.fl.). þetta efni hentar til endurvinnslu. 

PS 6 er pólýstýren sem finnst m.a. í matarílátum eins og frauðplastbökkum. 

Aðrar/other 7 – sjöundi flokkurinn er safnflokkur fyrir ýmislegt annað plast. Hér er t.d. ABS plast sem finnst í LEGO kubbum og í lífplasti sem er merkt PLA. 

Heimildir:
https://www.ust.is/graent-samfelag/graenn-lifstill/flokkun-og-endurvinnsla/plast/ 

https://landvernd.is/sidur/landvernd-gefur-ut-rafbokina-hreint-haf 

Varasöm efni í plasti

 BPA eða bisphenol A er lífrænt efnasamband sem er notað í framleiðslu á ýmsum plastefnum. BPA er t.d. notað sem þrávarnarefni í mýkingarefnum og gegnir lykilhlutverki í framleiðslu á pólýkarbónat plasti og epoxýresíni en epoxíresín eru notuð til húðunar í dósir sem ætlaðar eru matvælum bæði niðursuðudósir og dósir fyrir drykkjavörur o.fl.  Við finnum BPA t.d. í vatnsflöskum, pelum og í nestisboxum.
Sýnt hefur verið fram á að BPA lekur út í vökva úr plastílátum og hætt er við að því meira sem þau eru notuð og ef þau eru hituð margfaldist lekinn. Það sama á við ef heitum vökva er hellt í ílát.

BPA hefur áhrif á líkama okkar þar sem að efnið líkir eftir hormóninu estrógen og þegar BPA kemur inn í líkama okkar og trufli með því starfsemi í innkirtlum líkamans. Sýnt hefur verið fram á að það geti leitt til þess að dregið geti úr eðlilegum þroska heilans og taugakerfis og einnig valdið ófrjósemi og þroskafrávikum.

 

Þalöt (e. phtalates) eru hópur efna sem eru sett í plast til að mýkja það og gefa því sveigjanleika. Nokkrar gerðir þalata geta raskað hormónastarfsemi líkamans,  geta t.d haft skaðleg áhrif á frjósemi og eru fóstur og nýfædd börn viðkvæmust fyrir þessum efnum en þalöt hafa fundist í brjóstamjólk. Evrópusambandið hefur sett reglur sem banna notkun tiltekinna þalata í leikföng. PVC plasti ætti alltaf að skila á sorphirðustöðvar til förgunar. 

Heimildir:
http://www.mast.is/matvaeli/snertiefni-matvaela/bisfenola/
https://www.ust.is/graent-samfelag/efnamal/varasom-efni/thalot/

Load More

Örplast eru plastagnir sem eru minni en 5 mm í þvermál og sjást oftast ekki með berum augum. Örplast er allstaðar á jörðinni, í andrúmsloftinu og í dýpstu hafsprungum. Örplast er hluti af svifryki (nanóagnir t.d.) og koma þær aðallega frá bíldekkjum og götumerkingum. Þegar örplast er orðið að nanó-ögnum þá á það mjög greiða leið inn í líkama okkar í gegnum öndunarfærin. Norðmenn hafa gefið út meðmæli um hvaða aðgerðir geta dregið úr því að örplast berist af götunum og út í sjó. Þessi meðmæli eru: nota bílinn minna, bæta þrif á vegum, minnka notkun á nagladekkjum, vistakstur og sjálfkeyrandi bifreiðar og svo bætt snjóhreinsun.
Skordýr, t.d. ormar geta einnig dreift örplastinu neðar í jarðveginn þar sem þeir taka örplastið upp á einum stað og skila því út með saur á næsta stað.

Svokallaðar örperlur (e.microbeads) finnast í mörgun snyrtivörum. Örperlur eru settar í snyrtivörur til að framkalla ákveðna áferð eða áhrif. Örperlurnar eru minni en 1 mm í þvermál og eru framleiddar agnir sem verða að örplasti þegar þær fara út í náttúruna. Svona litlar plastagnir virka sem einskonar svampar á eiturefni, þ.e. þær draga í sig önnur mengandi efni úr umhverfinu sem gerir það að verkum að örperlurnar/örplastagnirnar verða enn mengaðri fyrir vikið.  

Breskir vísindamenn hafa kallað eftir sölubanni á glimmeri sem er búið til úr plasti og benda vísindamennirnir á að glimmer hafi sömu neikvæðu áhrifin á umhverfið og annað örplast. 

Árið 2018 gerði Umhverfisstofnun tvo rannsóknarsamninga til að meta stöðuna á plastmengun í hafinu í kringum Íslandi, annars vegar við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum sem skoðaði örplast í kræklingi á völdum stöðum við Ísland. Hins vegar var gerður samningur við Náttúrustofu Norðausturlands um rannsókn á plasti í maga fýla. Niðurstöðurnar sýndu að örplast fannst í fjörukræklingi á öllum stöðum sem voru kannaðir og voru þetta aðallega plastþræðir (meðallengd þeirra 1,1mm) og plast fannst í um 70% þeirra fýla, marktækt meira plast í maga kvenfuglum. Örplast- og plastvandamálið er sannarlega að hafa áhrif á lífríkið við Ísland. 

Einnig þurfum við að hafa í huga að margar hreinlætisvörur sem við notum eiga ekki heima í klósettinu, eins og t.d. blautþurrkur, sem eru úr plasti. Munum að það á ekkert að fara í klósettin nema það sem kemur frá líkömum okkar og salernispappír. 

Helsta lausnin í baráttunni við örplastið er því að draga úr notkun einkabílsins og minnka svifryk í umhverfinu okkar.

 

Heimildir:
https://www.nationalgeographic.com/environment/2018/12/microplastic-pollution-is-found-in-deep-sea/
https://www.miljodirektoratet.no/globalassets/publikasjoner/M545/M545.pdf https://vegnett.no/2018/03/bildekk-er-den-storste-kilden-til-mikroplast/
https://www.youtube.com/watch?v=uAiIGd_JqZc 
https://tuttugututtugu.com/2017/11/17/vilja-banna-glimmer/
https://www.ust.is/2019/01/14/Orplast-finnst-i-islenskum-kraeklingi-plast-i-maga-70-fyla/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/
https://tuttugututtugu.com/tag/orplast/

Load More

Svarið við þessari spurning er ekki alveg eins auðvelt og ætla mætti. Framleiðsla á áli hefur í för með sér mikil umhverfisáhrif þar sem ál er búið til úr báxíti sem er málmgrýti sem inniheldur mikið áil. Álframleiðsla snýst um að ná álinu úr berggrýtinu og út úr þessu framleiðsluferli kemur, í stuttu máli, aðallega tvennt: annars vegar fíngert hvítt duft (súrál) og svo þykk rauð leðja sem inniheldur vítissóda. Þessi rauða leðja er allra jafna einskins nýt. Landeyðingin í álframleiðslu, þ.e. landið sem raskast (oft varanlega) vegna námugraftar eftir báxítinu, er verulegt umhverfisvandamál.  Það að framleiða einnota plastflösku úr nýju hráefni, flytja hana og urða hefur minni umhverfisáhrif heldur en einnota áldós sem er úr nýju hráefni. Lykilorðið hér er samt sem áður ”einnota”. Við endurvinnslu á áli þarf einungis 5% af þeirri orku sem þarf til að gera nýja áldós í fyrsta sinn. Því eru margar breytur sem þarf að huga að áður en svar fæst við þessari spurningu.

Málmar henta vel sem umbúðir þar sem þeir eru verðmætir og skila sér yfirleitt vel inn til endurvinnslu. Mikill ávinningur felst í því að endurvinna málma, sem dæmi þá er hægt að endurvinna suma málmtegundir aftur og aftur.
Vínbúðin birti nýlega umfangsmikla skýrslu um lífsferilsgreiningu áfengisumbúða og niðurstaðan var sú að best væri að kaupa bjór í dós og vín í fernum og boxum.

Load More

Framleiðsla á gleri er verri fyrir umhverfið heldur en framleiðsla á plasti. Ef við skoðum hvað verður um umbúðirnar í þegar notkun þeirra lýkur, þá hefur glerið ekki eins slæm áhrif þegar það kemur út í náttúruna þar sem gler er steinefni. Ekki er hægt að framleiða nýjar glerumbúðir úr gömlum glerumbúðum. Plast er hægt að endurvinna í annars konar vörur eins og flíspeysur. Flíspeysur og annar vefnaður sem er úr plasti skilar örplasti út í hafið þegar það er þvegið. Örplastið á greiða leið í hafið úr niðurfallinu á þvottavélunum okkar. Það er umhverfisvænna að flytja vörur í léttari umbúðum, eins og t.d. plast heldur en í glerumbúðum einungis vegna þess að plast er léttara en gler. 

Á Íslandi er gler ekki endurunnið heldur er það mulið og notað í uppfyllingarefni. Gler sem einnota umbúðir er því ekki góður kostur en ef þú notar umbúðirnar aftur og aftur horfir dæmið allt öðruvísi við. Ef við notum plastumbúðir og endurvinnum þær, gæti það verið mögulegra skárra en einnota glerumbúðir. Meðferð okkar á umbúðum er lykilatriði, þ.e. erum við að skila þeim á rétta staði í endurvinnslu eftir notkun.

Load More

Framleiðsla á plasti hefur margfaldast tuttugufalt frá árinu 1964 og heldur áfram að aukast. Samkvæmt tölum frá árinu 2018 eru Litháar sú þjóð sem endurvinnur hvað mest af plasti af öllum Evrópulöndunum eða um 74% en Ísland er í 16.sæti á þeim lista með um 42%.  Sameinuðu þjóðirnar hafa hrundið af stað alheimsátaki gegn plastmengun í höfum en eitt af meginmarkmiðum átaksins er að binda enda á notkun einnota plastumbúða. Evrópusambandið hefur samþykkt bann á einnota plast borðbúnað (diska, glös, hnífapör og matprjóna), plaströr, plasteyrnapinna, blöðruprik úr plasti og oxo-degradable plastbakka undir mat (take away box). Þetta bann gildir frá og með 2021. Frakkar eru sú þjóð sem hafa gengið hvað lengst í þáttöku í átakinu en þeir hafa bannað einnota plastpoka í verslunum og einnota borðbúnað úr plasti. Í samanburði henda Íslendingar um 70 milljónum plastpoka á ári hverju, sem eru um 1.120 tonn af plasti. Þar sem gert er ráð fyrir að ca. 2 kg af olíu til að framleiða 1 kg af plasti þá þarf 2.240 tonn af olíu til að framleiða alla þá plastpoka sem Íslendingar henda árlega. 

Íslendingar henda almennt einnota plasti strax eftir notkun. Talið er að hver plastpoki sé notaður í um 25 mínútur að meðtaltali. Hver einn og einasti Íslendingur skilur eftir sig um 40 kg af úrgangi umbúðaplasts á ári. 

Þann 1.september 2019 var bannað að afhenda burðarpoka án endurgjalds óháð því úr hvaða efni pokinn er. Alþingi hefur samþykkt lög sem fram kemur að í janúar 2021 verður algjört bann við sölu á einnota plastburðarpokum.

Heimildir:
https://ceoworld.biz/2018/12/04/these-european-countries-are-the-best-and-worst-at-recycling-plastic-waste/
http://www.europarl.europa.eu/news/en/headlines/society/20181212STO21610/plastic-waste-and-recycling-in-the-eu-facts-and-figures
https://ec.europa.eu/eurostat/web/products-eurostat-news/-/DDN-20181129-1

Load More

Plast kemur við sögu í daglegu lífi og finnst t.d. í öryggisbúnaði; barnabílstólar, hjálmar og öryggisgleraugu og í mörgum hlutum tengdum heilbrigðisgeiranum, æðaleggir, sprautur o.fl. Plast er efni sem hefur valdið umbyltingu á mörgum vígstöðvum. Mataröryggi mannsins hefur batnað þar sem matvæli geta nú geymst lengur vegna plastumbúða. Allskonar vörur sem auðvelda okkur lífið eru gerðar úr plasti, svo sem farsímar, tölvur, burðarpokar og fleira. Það er plast í flugvélum og bílum sem gerir farartækin léttari sem gerir það að verkum að þau þurfa minna eldsneyti. Plastið endist ótrúlega lengi sem getur verið mikill kostur í vörum sem eiga að endast og duga lengi. Plast er því alls ekki alslæmt, það á bara ekki að vera framleitt til þess að vera einnota.

Load More

Load More

Allt fer þetta eftir aðstæðum hvers og eins. Lykilatriðið er að um leið og við förum að flokka heimilissorp almennilega þar sem við tökum frá plast, pappa, gler, málm og lífrænan úrgang, þá minnkar almenna sorpið verulega. Einnig verðum við að hafa í huga að minni og meðvitaðri neysla leiðir af sér minna sorp. 

Hér eru nokkur atriði sem við getum gert:

Nota aðra poka í ruslið sem berast inn á heimilið, t.d. plastpokann utan af salernisrúllunum. 

Setja dagblöð í botninn á ruslafötunni og tæma beint úr fötunni í tunnuna úti. Reykjavík hefur gefið það út að íbúar mega sleppa því að setja poka utan um almenna sorpið sitt og hella því beint í tunnuna hjá sér (íbúar sjá þá sjálfir um að þvo tunnurnar sínar). Einnig er hægt að nota lífniðurbrjótanlega poka (sem dæmi maíspokar eða sykurreyrpokar) í stað plastpoka en þá erum við samt að skipta út einni einnota vöru fyrir aðra. 

Sjá meira um einnota poka hér: https://www.ust.is/graent-samfelag/graenn-lifstill/neysla-innkaup/einnota-pokar/?fbclid=IwAR25Oy41cEFjR8GuKejuQKHjTkHFv2YhIQLhtMWY6LxnVHpBBAp0BmwFtL0 

Load More

Load More

Instagram did not return a 200.

Instagram @ plastlausseptember